Ánægja með endingu Sæplast kerja

Bergur Huginn í Vestmannaeyjum hefur verið viðskiptavinur Sæplast í yfir 20 ár. Bergur-Huginn ehf gerir út tvo öfluga togbáta, Vestmannaey Ve 444 og Bergey Ve 544 sem hafa aflað vel og eru með tæp fjögurþúsund tonn á ári, þannig er ljóst er að notkun á kerjum hjá þeim er mikil. Samtals hefur fyrirtækið keypt um og yfir 3000 ker af Sæplast síðan um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.

Fyrir stuttu pantaði Magnús Kristinsson framkvæmdastjóri útgerðarinnar 750 ný ker til að endurnýja hjá sér um 15-20 ára gömul ker sem hafa verið í samfelldri notkun allan þann tíma og skilað miklum verðmætum að landi!

Magnús er ánægður með gæði og endingu kerjanna og hve fljótt var hægt að bregðast við og byrja framleiðslu samdægurs.

Sveigjanleiki og góð þjónusta hefur verið eitt af aðalsmerkjum Sæplast og ákaflega mikilvægur kostur fyrir viðskiptavinina. Auðvitað er ekki alltaf hægt að bregðast svona fljótt við en viðskiptavinir Sæplast treysta því að við gerum alltaf eins vel og við getum. 

Magnús hefur alltaf hugsað mjög vel um ker útgerðarinnar, leggur mikla áherslu á að þau séu í góðu lagi og vel með þau farið.  Kerin eru ílát undir matvæli og verðmæti útgerðarinnar og ljóst er að það er beint samband á milli umgengni um fisk, ílát og verð aflans.

Magnús passar vel upp á að kerin hans fari ekki upp um sveitir, inn á lóðir og undir drasl. í Vestmannaeyjum og víðar þorir enginn að taka BH ker ófrjálsri hendi, menn vita að þá mætir Magnús lítið ánægður og sækir sín ker!