Vel heppnuð þátttaka í vörusýningum

„Þátttaka okkar í sýningunni í Brüssel gekk vel og við fengum marga viðskiptavini í heimsókn á sýningarsvæði Sæplasts,“ segir Hólmar Svansson framkvæmdastjóri Sæplasts en alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni Seafood Global Expo lauk fyrir skemmstu.  Hólmar segir að vegna hryðjuverka í borginni fyrr á árinu hafi menn fundið nokkuð fyrir hertum öryggisráðstöfunum en þrátt fyrir það hafi stemmningin á sýningarsvæðinu verið góð og undirtektir gesta við þeim vörum sem Sæplast sýndi verið góðar.   „Þótt það hafi verið heldur færri gestir núna en síðast þá bættu gæðin það upp því þeir sem skiptu okkur máli mættu og því tókst sýningarhaldið vel frá okkar bæjardyrum séð,“ segir Hólmar Svansson framkvæmdastjóri Sæplasts.

 

Í þessari viku fer önnur mikilvæg vörusýning fyrir Sæplast fram í Frankfurt  sem kallast IFFA. „IFFA er okkur ekki síður mikilvæg sýning en Brüssel. Á IFFA sýningunni er aðaláherslan lögð á tæknibúnað fyrir kjötframleiðendur og allir helstu tækjaframleiðendur og þjónustufyrirtæki í þessum geira í Evrópu taka þátt. Sala Sæplasts á kerum fyrir kjötvinnslur eykst sífellt og verður æ mikilvægari með árunum. Það hefur líka sýnt sig á þessari sýningu að vörur okkar hér fá mikla athygli frá núverandi jafnt sem nýjum viðskiptavinum“ segir Hólmar