Um Sæplast

 

SÆPLAST GEYMA GÆÐINSÆPLAST raw material

SÆPLAST er leiðandi fyrirtæki í heiminum í hönnun og framleiðslu á tvöföldum einangruðum kerum og þreföldum sérstyrktum PE kerum og brettum sem notuð eru í matvælaframleiðslu og í endurvinnsluiðnaði.

Á innanlandsmarkaði er Sæplast öflugt í framleiðslu á byggingatengdum vöruflokkum, s.s. brunnum, tönkum, rotþróm, skiljum ofl. Þessir vöruflokkar eru að stærstum hluta seldir í gegnum byggingavöruverslanir um land allt.

Það hefur verið leiðarljós okkar við hönnun og framleiðslu SÆPLAST vara að þær mæti ströngustu kröfum viðskiptavina okkar sem koma víða að og úr mörgum ólíkum geirum atvinnulífsins. SÆPLAST vörur eru sérstaklega sterkbyggðar, endingargóðar og með hátt einangrunargildi. Rennislétt yfirborðið tryggir auðveld þrif og eykur matvælaöryggi til mikilla muna.

Framleiðsluferlið byggir á hverfissteypu þar sem plasthráefni er sett í lokað mót og því snúið um tvo ása inni í ofni. Þegar mótið hitnar bráðnar hráefnið og sest á innra yfirborð þess og eftir að allt plastið hefur bráðnað er mótið tekið úr ofninum og kælt.

SÆPLASTI hefur frá upphafi tekist að viðhalda orðspori sínu sem framleiðandi gæðavara sem veitir ávallt framúrskarandi þjónustu.

 

UPPHAF SÆPLASTS

Sæplast in Dalvik, Northern Iceland

SÆPLAST er meðal þekktustu útflutningsfyrirtækja á Íslandi. Rætur fyrirtækisins má rekja til Dalvíkur, sjávarþorps á norður Íslandi þar sem fyrirtækið var stofnað árið 1984. Allar götur síðan hefur framleiðsla á hverfissteyptum einangruðum umbúðakerum verið þungamiðjan í framleiðslu Sæplasts og fyrirtækið verið í fararbroddi í heiminum í hönnun og framleiðslu á slíkum vörum. Fyrstu árin þjónaði fyrirtækið fyrst og fremst viðskiptavinum í sjávarútvegi en síðan hafa aðrar greinar í matvælaiðnaði í auknu mæli tekið framleiðsluvörur SÆPLASTS í sína þjónustu.

Fyrirtækið stækkaði ört með sameiningum og kaupum á öðrum fyrirtækjum í plastiðnaði. Sæplast er hluti af Rotovia samstæðunni. Rotovia er alþjóðlegt framleiðslufyrirtæki sem á rætur sínar að rekja til Íslands og er í dag í eigu íslenskra fjárfesta. Félagið er eitt stærsta hverfisteypufyrirtæki í Evrópu, með tíu framleiðslueiningar í sjö löndum auk viðamikils sölunets á heimsvísu. Það þjónar fjölbreyttum hópi viðskiptavina í mismunandi atvinnugreinum, með sérstaka áherslu á matvælaiðnaðinn. Tekjum félagsins má skipta í tvo tiltölulega jafna hluta. Annars vegar tekjur  frá framleiðslu og sölu íhluta fyrir framleiðendur atvinnubifreiða, landbúnaðartækja, vindmylla, hreingerningavéla og báta og hins vegar tekjur vegna  framleiðslu og sölu á eigin vörum,  þar sem tvö  gamalgróin íslensk fyrirtæki með farsæla sögu vega þyngst – Sæplast og Tempra.

Í dag rekur Sæplast þrjár verksmiðjur. Á Íslandi þar sem starfa um 60 manns, í New Brunswick í Kanada og á Spáni. Sölunet Sæplast byggir á söluskrifstofum og umboðsmönnum sem selja vörur fyrirtækisins um heim allan.