Ecofriendly
Sæplast is committed to protecting the environment
Þúsundþjalasmiðurinn Elvar Þór Antonsson á Dalvík var að ljúka byggingu á enn einu skipalíkaninu, að þessu sinni var það Mánaberg ÓF 42. Skip sem er í eigu Ramma hf. í Fjallabyggð og nú á að fara að leggja. Elvar segir að skipið eigi sér merkilega sögu, því þetta sé fyrsti íslenski skuttogarinn af stærri gerðinni sem kom til landsins, smíðaður á Spáni árið 1972. Skipið var keypt til Reykjavíkur og hét þá Bjarni Benediktsson, gert þaðan út en síðan keypti Sæberg í Ólafsfirði togarann, og hann hefur verið gerður út frá Ólafsfirði síðan. Fyrst af Sæbergi (sem reyndar lét byggja nýja brú á skipið), en eftir að fyrirtækið sameinaðist Þormóði ramma, sem síðar varð Rammi hf. hefur það fyrirtæki gert Mánabergið út.
Óhætt er að segja að líkanið af Mánaberginu sé glæsilegt. Aðspurður um hversu margar vinnustundir fari í hvert líkan, segir Elvar að það sé mismunandi, 300-500 tímar allt eftir því hversu mikið „föndur“ sé í þessu. Hann kveðst leggja mikla áherslu á að ná öllum smáatriðum sem réttustum og að vel sé vandað til verka. Við smíðina er farið eftir teikningum af skipunum sjálfum, smækkað niður að sjálfsögðu, en kaupendurnir ráða náttúrulega hversu stórt líkanið er.
Elvar byrjaði í þessari líkanasmíði árið 1998. Hið fyrsta sem hann smíðaði var Björgúlfur EA, enda honum málið tengt þar sem hann var til sjós á Björgúlfi um skeið. Björgúlfur er jafnframt eina líkanið sem hann hefur sett vél í, og var líkaninu siglt um Dalvíkurhöfn við vígslu þess. Meðal annarra skipa sem hann hefur smíðað eru Loftur Baldvinsson og Stefán Rögnvaldsson frá Dalvík, Sigurbjörgin frá Ólafsfirði, Akureyrin frá Akureyri og Eyrún og Haförn frá Hrísey. Alls eru líkönin orðin tíu talsins, og enn á eftir að fjölga.
Elvar tók sér hlé frá líkanasmíðinni um nokkurra ára skeið, en er nú kominn á fullt aftur og hyggst bara bæta í. „Það er eitthvað á teikniborðinu, en hafi menn áhuga á að láta mig smíða þá er bara að hafa samband og við sjáum til hvað kemur út úr því. Mér finnst mikilvægt að geta boðið uppá svona þjónustu hér heima og menn þurfi ekki að sækja allt erlendis frá. Draumurinn er náttúrulega að geta gert þetta að aðlastarfi, en við sjáum bara til hvort það tekst,“ sagði Elvar Þor Antonsson að lokum.