Sæplast fær ISO 9001:2015 gæðavottun

Loftmynd af verksmiðju Sæplasts á Dalvík.
Loftmynd af verksmiðju Sæplasts á Dalvík.

Sæplast fær ISO 9001:2015 gæðavottun

Fyrr í sumar fékk Sæplast á Dalvík vottun um að gæðakerfi fyrirtækisins standist kröfur alþjóðlega gæðastaðalsins ISO 9001:2015.  Gæðakerfið nær yfir hönnun, framleiðslu og sölu á hverfisteyptum kerjum, lokum, brettum og fylgihlutum, tönkum, brunnum og sand-, olíu – og fituskiljum ásamt sérhönnun viðskiptavina. Reynt er að tryggja að gæði  framleiðslunnar séu jöfn og stöðug og í samræmi við lög og reglur og þau markmið sem fyrirtækið hefur sett sér. Áður en vottunin var staðfest fór fram viðamikil úttekt á öllum framleiðsluferlum og gæðamálum Sæplasts á Dalvík.

Ekki bara stimplað skjal á vegg

„Þessi vottun er ekki bara stimplað skjal uppi á vegg. Gæðakerfið hjálpar okkur að tryggja að varan sem viðskiptavinurinn fær í hendur standist þær kröfur sem hann gerir,“ segir Elías Björnsson verksmiðjustjóri Sæplasts. Elías segir að vissulega megi alltaf gera ráð fyrir einhverjum frávikum í framleiðslunni, en með þeim verkferlum sem felast í ISO 9001:2015 staðlinum, endurteknu áhættumati krafna og stöðugum umbótum á gæðakerfinu þá séum menn mun öruggari en áður með að uppfylla væntingar viðskiptavinarins. „Þetta kerfi veitir okkur góða yfirsýn um gæðamál í öllu framleiðsluferlinu allt frá því að hugmynd að vöru kviknar þar til hún hefur verið framleidd og send til viðskiptavinarins.“

Langur aðdragandi

Að sögn Elíasar hefur verið unnið markvisst síðast liðið ár að innleiðingu kerfisins og að gerð nýrrar gæðahandbókar fyrir Sæplast, en í raun sé aðdragandinn mun lengri.  Hann segir að byrjað hafi verið á þessari vinnu fyrir um 20 árum en ekki lokið við hana þá meðal annars vegna gríðarlegs pappírsflóðs sem fylgdi innleiðingu kerfisins á þeim tíma. Í dag hefur innleiðingarferlið breyst og í stað kröfu um að til séu skjöl um um alla mögulega þætti í framleiðsluferlinu eru nú gerðar reglulegar úttektir sem eiga að staðfesta að allir verkferlar í framleiðsluferlinu virki eins og til er ætlast.  Þótt innleiðingu staðalsins hafi ekki verið lokið á sínum tíma með formlegri vottun segir Elías að sú vinna sem lögð var í verkið á sínum tíma hafi nýst félaginu vel í öllu gæðastarfi og stytt leiðina að formlegri vottun nú.