Ecofriendly
Sæplast is committed to protecting the environment
Tækniþróunarsjóður Rannís hefur veitt Sæplasti vilyrði fyrir 35 milljóna króna styrk til að halda áfram þróun nýrrar gerðar fiskikera sem munu lækka flutningskostnað verulega og fara betur með hráefnið en eldri ker. Um er að ræða svokölluð tvíburaker sem hafa verið í þróun hjá Sæplasti og samstarfsaðilum fyrirtækisins undanfarin tvö ár. Þróun keranna er hafin og miðar að því að tvö og tvö ker geti staflast hvert ofan í annað sem minnkar verulega það pláss sem þau taka þegar þau eru flutt tóm. Einhverjar útgáfur keranna verða að öllum líkindum grynnri en hefðbundin 460 lítra ker frá Sæplasti sem þýðir að minna farg verður á því hráefni sem liggur neðst í kerinu. „Við bindum miklar vonir við að þetta verkefni auðveldi okkur að ljúka þróun kers sem verður einstakt á heimsvísu og mun styrkja stöðu fyrirtækisins enn frekar á næstu árum,“ segir Björn Margeirsson rannsóknastjóri Sæplasts.
Mikilvæg viðurkenning
Styrkurinn frá Tækniþróunarsjóði nemur 18 milljónum króna fyrir árið 2017 og vilyrði er fyrir 17 milljónum króna til viðbótar árið 2018 háð framgangi. Björn segir styrkinn frá mikilvæga viðurkenningu á því þróunarstarfi sem unnið hefur verið. Nú verði haldið áfram að þróa og endurbæta þá frumgerð sem þegar liggur fyrir og aðlaga hana að þörfum markhópa sem kunna að meta einstaka eiginleika þessarar sérstöku lausnar. Hann segir að auk þess sem nýju kerin auki hagkvæmni hráefnisflutninga til mikilla muna sé til skoðunar að bjóða upp á endurnýtanlegar umbúðir sem geti keppt við einnota umbúðir eins og frauðkassa sem notaðir eru í stórfelldum mæli við flutning á ferskum matvælum. Hingað til hafi menn talið hefðbundin ker of djúp fyrir slíka flutninga en það gæti breyst með tilkomu þessara nýju kera, sérstaklega þegar um er að ræða ofurkældar fiskafurðir.
Samstarfsaðilar
Háskóli Íslands er samstarfsaðili Sæplasts í þessu verkefni en Björn Margeirsson er jafnframt lektor í iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild skólans. Aðrir samstarfsaðilar eru Matís sem mun rannsaka áhrif breyttra kera á fiskgæði, Nýsköpunarmiðstöð annast burðarþolsprófanir og Háskólinn á Akureyri mun meta hagrænan ávinning af notkun keranna. Þá munu tveir af lykilviðskiptavinum Sæplasts, keraleigufyrirtækið ITUB og fiskvinnslufyrirtækið Icefresh í Þýskalandi taka þátt í verkefninu.
Þess er vænst að rannsóknum og þróun tvíburakeranna verði lokið á næstu tveimur árum og að þá verði hægt að hefja framleiðslu og sölu þeirra. „Í dag er kostnaður vegna flutnings á tómum kerum verulegur og öll skref sem hægt er að stíga til að draga úr honum skipta máli, ekki bara efnahagslegu- heldur líka í umhverfislegu tilliti,“ segir Björn Margeirsson, rannsóknastjóri hjá Sæplast á Dalvík.
Nýju tvíburakerin sem nú eru í þróun eru tilbrigði við 460 fiskikerin sem hafa verið meðal vinsælustu keranna frá Sæplasti.
Nánari upplýsingar:
Björn Margeirsson, rannsóknastjóri. s: 898 4901