Upphafsárin í Sæplasti voru ævintýralega skemmtileg

Friðrik Vilhelmsson í framleiðslusalnum í Sæplasti. Hann var á tuttugasta aldursári þegar hann hóf s…
Friðrik Vilhelmsson í framleiðslusalnum í Sæplasti. Hann var á tuttugasta aldursári þegar hann hóf störf hjá Sæplasti fyrir réttum 39 árum.

Upphafsárin í Sæplasti voru ævintýralega skemmtileg

segir Friðrik Vilhelmsson sem hefur lengstan starfsaldur núverandi starfsmanna

 

„Þegar ég lít til baka til upphafsáranna þá var þetta fyrst og fremst ævintýralega gaman. Við í starfsmannahópnum höfðum mjög gaman að því sem við vorum að gera, fyrirtækið gekk vel og uppbyggingin var mjög hröð. Auðvitað gekk á ýmsu en vandamálin voru bara til að leysa þau og við vorum staðráðin í að ekkert stæði í vegi fyrir okkur í því verkefni að láta fyrirtækið ganga. Fyrir okkur öllum var þessi framleiðsla nýr heimur og mörg vandamálin sem við þurftum að takast á við en einhvern veginn gekk allt upp á endanum,“ segir Friðrik Vilhelmsson sem er sá starfsmaður Sæplasts sem hefur lengsta samfellda starfsreynslu í fyrirtækinu. Hann hóf störf í framleiðslunni fyrir 39 árum, í maí árið 1985. Byrjaði á gólfinu, ef svo má segja.

 

Úr fiskinum í plastið

„Þegar ég gekk inn í Sæplast  var ég á tuttugasta aldursári sem auðvitað þýðir að ef guð lofar þá næ ég samanlögðum 100 árum í lífaldri og starfsaldri á næsta ári,“ segir Friðrik hlæjandi en áður vann hann í fiskvinnslu í Blikahúsinu við Ránarbraut.

„Starfsemin hjá Sæplasti var komin í gang í næsta húsi við okkur við Ránarbrautina, í Vinshúsinu og ég færði mig þess vegna ekki nema um eitt hús þegar ég skipti um starfsvettvang,“ segir Friðrik. Hverfisteypusalurinn á þeim tíma var ekki nema örlítið brotabrot af framleiðslusal Sæplasts í dag og raunar var hverfisteypuofninum komið fyrir við hlið hússins og sagað gat á austurvegg þess til að tengja ofninn við salinn.

„Þegar ég byrjaði hafði verið unnið á tvískiptum vöktum í hverfisteypunni en verið að skipta yfir á þrískiptar vaktir allan sólarhringinn. Þarna voru tveir starfsmenn á hverri vakt þannig að starfsmönnum í framleiðslunni var að fjölga úr fjórum í sex. Kerin voru aðal framleiðslan í stóra ofninum en við vorum líka með annan lítinn ofn inni í salnum þar sem við framleiddum vörur á borð við vörubretti og ýmsar smávörur. Það er reyndar áhugavert í ljósi þess að einmitt núna erum við að skipta alfarið yfir í rafmagn í ofnunum hjá Sæplasti að þarna í byrjun var litli ofninn knúinn rafmagni. Við höfum því á vissan hátt verið á undan okkar samtíð miðað við þá þróun sem nú er en þessi ofn var auðvitað barn síns tíma og oft var betra að vera með slökkvitækin við hendina. Það gat gengið á ýmsu,“ segir Friðrik kíminn.

 

Þeir félagar Hilmar Guðmundsson og Friðrik fylgdust lengi að í störfum hjá Sæplasti og unnu í byrjun saman í framleiðslunni í Vinshúsinu. Þessi mynd var tekin nokkrum árum síðar þegar framleitt var í upphaflega ofninum í síðasta sinn og að sjálfsögðu rifjuðu þeir félagar upp handtökin af því tilefni. 

 

Hittum á óskastund

Uppgangur Sæplasts var hraður á fyrstu árunum og þótti mörgum nóg um. Fyrirtækið var keypt til Dalvíkur úr Garðabæ árið 1983, framleiðsla hófst árið 1984 og fljótt varð ljóst að húsnæðið við Ránarbraut dygði engan veginn hraðvaxandi starfsemi og framleiðslu. Því var ákveðið að byggja nýtt 800 fermetra framleiðsluhús, sem er hluti húsnæðis Sæplasts enn þann dag í dag. Nýbyggingin var tekin í notkun þann 19. júní árið 1987 og var strax byrjað á viðbyggingu sem voru aðrir 800 fermetrar.  Þá voru starfsmenn orðnir 22 talsins. Í dag eru þeir um 60 og hafa verið um árabil. Gamli hverfisteypuofninn var fyrst í stað fluttur úr húsinu við Ránarbraut í nýja húsið en hjarta nýbyggingarinnar má segja að hafi verið ný þýsk vélasamstæða sem gerði kleyft að þrefalda framleiðslu fyrirtækisins. Og þess utan hafði Sæplast keypt iðnfyrirtækið Börk í Hafnarfirði árið 1987 með það að markmiði að flytja starfsemina til Dalvíkur. Meðal framleiðsluvara Barkar voru einingar í kæli- og frystiklefa, þak- og húseiningar, einangruð hitaveiturör og snjóbræðslukerfi. Röraframleiðslan í Berki var reyndar strax seld til fyrirtækis á Flúðum en átti eftir að koma aftur við sögu í rekstri Sæplasts þegar hún var keypt og flutt til Dalvíkur árið 1994.

Gripið í spil í kaffitímanum. Frá vinstri: Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Reynisson, Pétur Reimarsson og Friðrik Vilhelmsson. Kristinn Kristjánsson fylgist með spilinu.

„Einhvern veginn hittum við á ákveðna óskastund í rekstri Sæplasts á þessum tíma og með þær vörur sem fyrirtækið framleiddi. Þarna voru kassarnir á útleið í fiskiskipunum og útgerðin sá mikla kosti fylgja kerjunum, t.d. hvað varðaði löndun, meðferð á afla, vinnusparnað og ýmislegt fleira. Menn sáu fljótt að það var mun auðveldara að halda fiskaflanum kældum í eingangruðu kerjunum en í kössum sem áður voru alls ráðandi. Við fórum strax að flytja mikið á erlenda markaði, t.d. til Færeyja, þannig að áhuginn á kerjunum var alveg með sama hætti erlendis. En svo var landslagið í útgerðinni bæði hér á landi og erlendis með allt öðrum hætti en er í dag. Þær voru miklu fleiri og smærri en allir vildu stíga skrefið í þeirri tæknibreytingu sem kerin frá Sæplasti höfðu í för með sér,“ segir Friðrik.

 

Sæplast varð strax öflugt útflutningsfyrirtæki. Hér bíða ker í röðun eftir útskipun í Dalvíkurhöfn, líkast til árið 1990.

 

Staldraði stutt við á vöktum

Þegar Sæplast réðist í kaupin á Berki árið 1987 breyttist starfsvettvangur Friðriks.

„Það fóru nokkrir starfsmenn suður til að vinna í Berki og þá hætti ég vaktavinnunni í framleiðslunni. Við tóku alls kyns útréttingar í kringum framleiðsluna og svo varð mitt aðal starf að annast alla afgreiðslu fyrirtækisins, taka á móti hráefni, afgreiða og lesta vörur í flutningabíla og gáma, hvort heldur var til kaupenda á Íslandi eða erlendis. Þetta sá ég alfarið um til fjölda ára og tengist þessum verkefnum að nokkru leyti ennþá,“ segir Friðrik sem hefur í yfir áratug haldið utan um sölu- og markaðsmál á byggingavörum Sæplasts ásamt því að sinna ýmsum skrifstofustörfum. Hann segir að frá fyrsta degi hafi það verið mikið metnaðarmál starfsmannahópsins að fyrirtækið gengi vel og að láta það sanna sig á Dalvík. Það hafi líka verið mikil gæfa að fyrsti framkvæmdastjórinn, Pétur Reimarsson, var menntaður efnaverkfræðingur sem oft hafi komið sér vel. „Auk þess var hann afar framsýnn og öflugur leiðtogi á upphafsárum fyrirtækisins,“ segir Friðrik.

 

Friðrik ásamt Pétri Reimarssyni, fyrsta framkvæmdastjóra Sæplasts

 

„Sæplast var í byrjun og lengi vel hlutafélag sem margir hér á Dalvík áttu í. Eftir margvíslegar eignarhaldsbreytingar hvarf félagið af markaði í efnahagshruninu 2008. Sem betur fer hefur þó Sæplastmerkið náð að haldast í gegnum allan þennan tíma og umbreytingar. Það er mjög mikilvægt því ég held að í huga mjög margra sé afar sterk tenging milli Dalvíkur og Sæplasts. Og á þessum miklu vaxtarárum í byrjun gæti ég trúað að Sæplast merkið hafi verið jafnvel enn  þekktara hjá almenningi en er í dag. Það fór ekki framhjá fólki hvað við vorum að gera og hversu hraður vöxtur fyrirtækisins var,“ segir Friðrik.

 

Margt breytt - annað ekki

Hópur samstarfsfólks í Sæplasti á starfstíma Friðriks er orðinn býsna stór, skiptir vafalítið hundruðum allt í allt og forstjórarnir á þessum 39 árum eru orðnir sjö talsins.

„Breytingarnar eru á mörgum sviðum í fyrirtækinu alveg gríðarlegar, starfsaðstaða allt önnur en samt er svolítið skondið að sumt er með nákvæmlega sama hætti og fyrir 40 árum. Hverfisteyputæknin er sú sama, mótin sem við notum eru byggð upp með svipuðum hætti og framleiðsluferlið er í grunninn það sama. Við fórum í ýmsar hliðargreinar, s.s. eins og starfsemi Barkar, sprautusteypuverksmiðju Plasteinangrunar og röraverksmiðjan Hula var keypt og starfrækt um tíma undir merki Sæplast í Ránarhúsinu.  Verksmiðjur voru keyptar og starfræktar erlendis og þannig mætti áfram telja. Með árunum hefur áherslan samt leitað aftur í grunninn og upprunann, þ.e. framleiðslu á kerjum og tengdum búnaði til nota í matvælaframleiðslu. Eina breytingin sem segja má að hafi orðið á þeirri hugmyndafræði frá upphafsárunum er að í dag eru kerin notuð í fjölþættari matvælaframleiðslu en þá var gert, til dæmis í kjötiðnaði. Sæplast varð strax í upphafi öflugt útflutningsfyrirtæki, hlaut útflutningsverðlaun forseta Íslands árið 1994. Þessi áhersla á markaðsstarf erlendis hefur skipt miklu máli. Mikilvægast held ég þegar litið er um öxl að þessi kjarni starfsmanna og eigenda sem að Sæplasti stóð í byrjun var ákveðinn í því að gera framúrskarandi vel. Á því byggðist farsældin í framhaldinu.“

 

Friðrik var í hópi aðstandenda Sæplasts sem tók við útflutningsverðlaunum forseta Íslands á Bessastöðum árið 1994.